Þetta bréf barst til okkar í stjórn og birtum við það hér til upplýsingar.
Ágætu formenn
Nú líður að Fjórðungsmóti Austurlands 2015 (FM2015) og ekki seinna vænna en að ganga í skráningar. Skráningar verða með eftirfarandi hætti:
1) Hestamannafélög senda upplýsingar um þau pör sem keppa fyrir hönd félagsins í gæðingahluta mótsins. Upplýsingarnar sendist á freyfaxihestar@gmail.com. Búið er að gefa út hvað hvert hestamannafélag má senda mörg hross í hvern flokk en vert er að taka eftirfarandi fram.
a) Hafi verið haldin úrtaka mega félögin senda öll hross sem fóru yfir 8,20 í forkeppni
eða tiltekinn lágmarksfjölda hrossa á mótið. Þessu til viðbótar mega félög senda öll hross sem náð hafa 8,20 í forkeppni gæðingakeppni á árinu, þó svo að þær einkunnir hafi fengist einhversstaðar annarsstaðar en í úrtöku.
b) Hafi fjöldi knapa í úrtöku verið færri en félögin hafa rétt til að senda á mót er félögunum í sjálfvald sett hvort þau tilnefna fleiri hross eða knapa á FM2015 til að fylla í fjöldann, jafnvel þó að þau pör hafi ekki náð 8,20 á árinu.
c) Hafi félag ekki haldið úrtöku er þeim í sjálfvald sett hvaða hross/pör þau tilnefna á mótið innan þess fjölda sem þau hafa fengið úthlutað.
d) Hestamannafélögin sjá um að greiða fyrir þau pör sem mæta til leiks í gæðingakeppnina, þeim er svo í sjálfvald sett hvort þau rukki knapa/eigendur um skráningargjöldin. Greiðslur skulu hafa borist í seinasta lagi á hádegi mánudaginn 29. júní.
e) Skráningar skulu hafa borist á miðnætti föstudagsins 26. júní.
2) Í opnu flokkana (tölt, skeið og opna stóðhestakeppni) fara skráningar fram í gegnum sportfeng og það er á ábyrgð knapa að greiða skráningargjöld í þá flokka. Opnað verður fyrir þessar skráningar svo fljótt sem auðið er og verður það auglýst vel á hestamiðlum landsins og heimasíðu mótsins.
3) Ræktunarbú skulu skráð í gegnum síma eða tölvupóst hjá Jóni Björnssyni (897-9901 jonbjornsson1@gmail.com).
4) Verðskrá er eftirfarandi:
a. Skráningargjöld fullorðinna 6.000 kr. (gæðingakeppni, skeið, tölt og stóðhestakeppni).
b. Skráningargjöld barna, unglinga og ungmenna 4.500 kr (gæðingakeppni og tölt).
c. Ræktunarbússýning 30.000 kr.
Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá Jóni Björnssyni, framkvæmdastjór FM (897-9901, jonbjornsson1@gmail.com) eða Bjarka Þorvaldur Sigurbjartssyni, formanni Freyfaxa og mótsstjóra FM (843-7619, bjarki.thorvaldur@gmail.com).
Rétt er að ítreka eftirfarandi:
Það er 100 metra skeið og stóðhestakeppni opin fyrir keppendur alls staðar af landinu. Engin lágmörk eru í tölti og skeiði og geta allir tekið þátt.
Kynbótahross eru dæmd á mótinu og boðið er upp á sýningar ræktunarbúa.
Keppt er í hefðbundinni gæðingakeppni A og B flokk fullorðinna, ungmennum, unglingum og
börnum
Opin töltkeppni er á mótinu óháð hestamannafélagi. Keppt er í fimm flokkum í tölti, börnum, unglingum, ungmennum, áhugamönnum og opnum flokki. Riðið er T3 nema í opnum flokki
þar er T1.
Lögð er áhersla á skemmtun fyrir börn og fullorðna. Næg tjaldsvæði eru á Stekkhólma og er
það innifalið í miðaverði.
Dagskrá mótsins er í smíðum en hefur tafist þar sem úrtökur fóru seint fram og erfitt að átta sig á fjölda skráninga. Sama má segja varðandi kynbótadóma, að þeim er ekki enn lokið og
eru sýningar alveg fram á miðvikudaginn 24. júní.
Fyrstu drög gera ráð fyrir að dómur kynbótahrossa og B-flokkur hefjist á fimmtudag. Við verðum að óska efir smá biðlund og skilningi hjá ykkar á meðan við fáum frekari upplýsingar um skráningar. Því fyrr sem við fáum upplýsingar frá ykkur því betra er að stilla upp dagskrá.
Dagskrá verður gefin út eins fljótt og auðið er.
Miðasala fer fram í hliðinu á staðnum og hefur miðaverð þegar verið gefið upp á heimasíðu
mótsins.
Séu einstaklingar innan félaganna sem hafa áhuga á að vinna að sjálfboðaliðastarfi á mótinu mega þeir hafa samband við undirritaða. Allir sem taka 2 vaktir á mótinu (6 klst. hvor vakt) fá
frímiða á mótið og frítt að borða meðan á störfum þeirra stendur.
Fyrir hönd mótshaldara þökkum við góð viðbrögð við mótinu og hlökkum til að sjá sem flesta á Stekkhólma í júlí. Munum að þeim mun betur sem við vinnum saman þeim mun betra og skemmtilegra verður mótið.