Lög Grana

//Lög Grana
Lög Grana 2022-01-13T21:18:18+00:00

Lög Grana

1.grein.
Félagið heitir Hestamannafélagið Grani. Heimili þess og varnarþing er á Húsavík.

2.grein.
Markmið félagsins er að efla áhuga á hestum og hestaíþróttum, stuðla að góðri meðferð hesta og gæta hagsmuna félagsmanna.

Í samræmi við ofangreind markmið hyggst félagið vinna að eftirfarandi verkefnum:
1. Að reiðvegir séu gerðir sem víðast og þannig, að önnur umferð verði til sem minnstrar hindrunar og óþæginda. Reiðvegum þessum sé ávallt haldið við eins vel og efni og aðstæður leyfa.
2. Að byggja upp nauðsynleg mannvirki vegna starfsemi félagsins,
3. Að halda mannvirkjum í eigu félagsins í sem bestu ástandi og tryggja góða aðstöðu fyrir fjölbreitt félagsstarf.
4. Að standa fyrir keppni og sýningum á hestum þegar hentar.
5. Að vinna að því, að flutt sé á vegum félagsins fræðsluerindi um hvaðeina sem snertir hestinn, hestaíþróttir, hrossarækt og önnur málefni á áhugasviði hestamanna.
6. Að stuðla að æskulýðsstarfi.
7. Að koma á framfæri sjónarmiðum félagsmanna á málum sem varða sameiginlega hagsmuni þeirra svo sem skipulags-, landnýtingar- og umferðarmálum m.a.
gagnvart ríkisvaldi og sveitarfélögum.

3.grein.
Félagar geta allir orðið sem þess óska og hafa áhuga á hestum og eru reiðubúnir til að hlíta lögum og reglum félagsins. Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn þess sem tekur afstöðu til hennar. Í umsókn skal greina nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang umsækjanda sé þess kostur. Öðlast umsækjandi full félagsréttindi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt umsóknina og þegar umsækjandi hefur greitt félagsgjald yfirstandandi starfsárs.

4.grein.
Aðalfundur ákveður árlegt félagsgjald sem skal greiða fyrir 15. des á starfsári. Félagsmenn bera enga persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins og ber félagið eitt ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til í nafni þess. Félagar 67 ára og eldri og þeir sem eru yngri en 18 ára greiða ekki félagsgjald.

5.grein.
Félagar, sem ekki greiða félagsgjald fyrir 15 des  ár hvert, hafa ekki rétt til að taka þátt í keppnum á vegum félagsins né réttindi á fundum þess á næsta  starfsári (sem er hið sama og reikningsár félagsins), fyrr en þeir hafa greitt skuld sína. Sé félagsgjald ógreitt í tvö ár er stjórn heimilt að fella viðkomandi af félagaskrá. Viðkomandi getur ekki öðlast félagsréttindi á ný nema eldri skuld sé greidd. Brjóti félagi alvarlega af sér gegn lögum og reglum félagsins, er stjórn þess heimilt að víkja honum úr félaginu. Brottviknum félaga er heimilt að áfrýja máli sínu til aðalfundar.

6.grein.
Stjórn félagsins skipa fimm menn: formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi, sem kosnir eru á aðalfundi, skriflegri og óbundinni kosningu ef óskað er. Formann ber að kjósa einan sér . Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Á aðalfundi skal kjósa til eins árs í senn tvo skoðunarmenn  til að endurskoða reikninga félagsins. Skoðunarmenn þurfa ekki að vera félagar í Hestamannafélaginu Grana.

7.grein.
Formaður  boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef tveir stjórnarmanna óska þess. Ritari gegnir ritarastörfum og heldur gerðabók. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Gjaldkera er heimilt að ráða sér til aðstoðar aðra félagsmenn, enda beri hann ábyrgð á því. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.

8.grein.
Stjórn félagsins ber að varðveita öll skjöl og gögn er geyma heimildir um störf félagsins, svo sem félagaskrá, bókhaldsgögn og bréf.

9.grein.
Stjórn félagsins boðar félagsfund eins oft og þurfa þykir. Sama er, ef minnst 10% félagsmanna æskja þess skriflega til stjórnar og tilgreina fundarefni. Stjórn félagsins skal boða fundi með minnst þriggja daga fyrirvara með auglýsingu á vefsíðu félagsins, og/eða með auglýsingu í svæðisblöðum.
Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað . Einfaldur meirihluti skal ráða úrslitum allra mála á fundum félagsins nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
Formaður eða staðgengill hans setur fundi og lætur kjósa fundarstjóra í byrjun fundarins. Hinn kjörni fundarstjóri skal byrja á því að leggja fyrir fundinn hvort löglega hafi verið til hans boðað og hvort hann sé lögmætur. Sé fundur ekki lögmætur, má boða til hans að nýju á venjulegan hátt og er hann þá lögmætur án tillits til þess, hversu margir eru mættir. Félagar yngri en 18 ára hafa ekki kosningarétt eða kjörgengi.

10.grein.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir  15. apríl ár hvert, og skal hann boðaður skv. ákvæðum 9. gr. en þó með minnst viku fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar er:
1. Fundarsetning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Formaður leggur fram og kynnir skýrslu stjórnar um störf félagsins á síðasta starfsári.
4. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins til samþykktar, skoðaða af
skoðunarmönnum félagsins.
5. Lagabreytingar, skv. 20. gr.
6. Kosning aðalstjórnar skv. 6. gr.
7. Kosning tveggja skoðunarmanna og  skv. 6. gr.
8. Ákvörðun félagsgjalds.
9. Önnur mál, sem félagið varðar.

11.grein.
Reikningsár félagsins er frá 1.janúar til 31. desember.

12.grein.
Stjórn félagsins er heimilt að veita þeim félagsmönnum viðurkenningu, sem hafa í störfum sínum fyrir félagið sýnt framúrskarandi dugnað og hollustu og skal sú afhending fara fram á aðalfundi félagsins.

13.grein.
Stjórn félagsins er heimilt að bera fram tillögu á aðalfundi um kjör heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar í félaginu og markmiðum þess. Merki félagsins í gulli skal fylgja útnefningunni.

14.grein.
Reglur um kappreiðar og aðrar hestaíþróttakeppnir skulu vera samkvæmt samþykktum Landsambands hestamanna (L.H.).

15.grein.
Stjórn félagsins ákveður hvenær hestamót skulu haldin og skipar starfsmenn eftir því, sem lög og reglur L.H. mæla fyrir.

16.grein.
Heimilt er félaginu að vera aðili að almennum samtökum hestamannafélaga í landinu. Félagið er aðili að HSÞ, Landsambandi hestamannafélaga og Í.S.Í. Formaður félagsins er sjálfkjörinn á ársþing á HSÞ. og L.H. þing. Aðrir fulltrúar félagsins á HSÞ. og L.H. þing skulu skipaðir af stjórn félagsins.

17.grein.
Stjórn félagsins er heimilt að stofna nefndir innan þess og skulu þær bundnar af lögum félagsins og starfslýsingum sem stjórn setur á hverjum tíma.Einnig er stjórninni heimilt að skipa félagsmann utan stjórnar í tiltekin verkefni. Þeir sem hafa  fjármuni undir höndum, sem tilheyra félaginu, skulu gera skil til stjórnar strax að loknum störfum. Stjórn félagsins fer með atkvæðisrétt Grana á fundum Grána ehf.

18.grein.
Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir þess, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema samþykki lögmæts félagsfundar komi til. Ef stjórn hyggst leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun, skal geta þess í fundarboði. Heimildir samkvæmt grein þessari skal nota innan tveggja ára frá því þær eru veittar.

19.grein.
Stjórn félagsins setur reglur, ef þurfa þykir, um rekstur eigna félagsins svo og um aðra starfsemi þess jafnóðum og eignir verða til.

20.grein.
Lögum félagsins verður ekki breytt, nema á aðalfundi. Lagabreytingar, sem félagar kunna að vilja bera fram, skulu berast stjórninni með góðum fyrirvara ár hvert og skulu þær kynntar á vefsíðu félagsins og skal geta þeirra í fundarboði.

21.grein.
Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 hlutar félagsmanna, og verður það aðeins gert, að 2/3 hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði, án tillit til þess, hve margir eru mættir á fundinum. Verði félaginu þannig slitið, skulu eignir þess afhentar sveitarstjórn Norðurþings til vörslu, þar til nýtt félag með svipuðum markmiðum og félagið hafði, sbr. 2. gr. verður stofnað í þessu sveitarfélagi. Skulu eignirnar þá afhentar því félagi til eignar, enda hafi bæjarráðið áður kannað vilja og getu hins nýja félags til að takast á hendur slíkan rekstur. Þann tíma, sem líða kann frá því að Norðurþingi væru afhentar eignirnar til vörslu, þar til nýju félagi yrðu afhentar eignirnar skv. fyrirmælum í grein þessari, er Norðurþing heimilt að nýta eignirnar á hvern þann hátt, sem hentugast þætti að því tilskyldu, að öllum eignum sé haldið eðlilega við.

Aðalfundur Grana 7.júni 2019