Saga Grana

//Saga Grana
Saga Grana 2017-04-25T19:25:34+00:00

Saga Grana

Hestamannafélagið Grani var stofnað árið 1964 af 20 áhugasömum hestamönnum á Húsavík og eru félagar í dag 77. Fyrsti formaður félagsins var Vilhjálmur Pálsson en núverandi formaður er Bjarki Helgason.

Mótssvæðið var tekið í notkun árið 1982 og þar er 300m hlaupabraut, 200m og 300m hringvöllur.
Einnig hefur Grani tekið þátt í mótshaldi með Feykismönnum á félagssvæði þeirra í Ásbyrgi og með Þjálfa á félagssvæði þeirra á Einarsstöðum.
Félagsbúningurinn er svartur jakki, hvitar buxur, hvít skyrta og grænt bindi.

Aðalhesthúsahverfi félagsins eru í Traðagerði sem stendur norðan Húsavíkurbæjar og í Saltvík sunnan við bæinn. Á næstu misserum stendur til að hestamenn flytji sig að mestu úr Traðargerði í Saltvík þar sem framtíðaruppbygging mun verða.

Þann 15. apríl 2012 var reiðhöll Grana og Þjálfa formlega tekin í notkun.

Granavísur

Í Flatkökusal Félagsheimilis Húsavíkur var haldin kvöldskemmtun á vegum Grana, en undirrituðum er ekki kunnugt um hvaða ár þessi skemmtun fór fram, og eftirfarandi vísur litu þar dagsins ljós. Vísurnar eru allar eftir skáldið Egil Jónason. Ef einhverjum er kunnugt um hvaða ár þetta er má hinn sami gjarnan láta það berast til undirritaðs.

Með kveðju
Þorgrímur Sigmunds.

Hér í bænum vetur og vor
Víða sést á spani
Teygja sig og taka spor
Truntufélagið Grani

Hans er sól ei hnígandi
Höfð ei flón á oddi
Stefán Ben og Stígandi
Stikla í fararbroddi

Þar er bæði knapi og klár
Keppnis fullir dáðum
Þó hafa margir þetta ár
Þotið fram úr báðum

Makkann reisir manns í fang
Mikið teygir nára
Þegar tekur gæðings gang
Gáski undir Kára

Fleygir grjóti fótur snar
Fatast aldrei kunni
Þegar knapinn Haukur Har
Hleypir Keyngálunni

Vel er snyrt og vel er gerð
Vel eru tímar sóttir
Pipur eins og píla á ferð
Pálína Guðjónsdóttir

Kastast mél og gneistar grjót
Grónar þúfur fljúga
Þegar Hörður hleypir Snót
Hinir undan snúa

Í þeim mikla merar flaum
Margir flaska á taki
Pétur fagran dreymir draum
En dettur svo af baki

Villi lappir liðkandi
Laðar fjör og gæði
Reiðar íþrótt iðkandi
Eru hjónin bæði

Enginn sleppa undan má
Ekki refsing bíður
Þegar Faxa ólmum á
Úníformin ríður

Allir hræddir hoppa frá
Hænur í vindinn baxa
Þegar Salli situr á
Sínum Díafaxa

Stutt er bak og stuttur háls
Stór eru heimsins undur
Kolbakur og Kári Páls
Kortlega þekkjast sundur

Fara miklar frásögur
Af fjöri hófa ljóna
Þegar hottar Haraldur
Hestar allir prjóna

Allir flýja og forða sér
Fátt óhult á daginn
Kvika undir Óla fer
Eins og jeppi um bæinn

Sleipnir og Gráni er sagt að sé
Sívalir um skrokkinn
Dórar tveir og báðir B
Berja fótastokkinn

Eingin bróðir er í leik
Allir monta af sínu
Þegar Bjarni ríður Reyk
Roðnar Toggi á Dýnu

Rökkva hef ég reynt og kynnst
Til reyðar bærilegur
Æi einhvernig að mér finnst
Óskup heiman tregur

Hlýr er svipur Sigurðar
Sést hann veginn ríða
Vökrum fótum Venusar
Vildu flestir hlýða

Hér ég loksins hika við
Bendi frá mér keyri
Afsökunar á því bið
Að ég nefni ei fleiri

Hófa dynur hátt í fjöllum
Heyrist víða um þessar slóðir
Fjörs og þols ég óska öllum
Ykkar fótum bræður góðir